Fólk sem kemur til landsins þarf að fara varlega þar til það fær niðurstöður úr skimun. Veiran sé enn til staðar í samfélaginu og því þurfi að lágmarka smithættu.
Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi. Fólk ætti í raun að haga sér eins og það væri í sóttkví.
Þegar fyrstu farþegar komu til landsins í gær mátti sjá marga faðmast, enda margir búnir að bíða lengi eftir því að koma til landsins.
Víðir segir það ekki ganga að fólk sé að fallast í faðma þegar það viti ekki hvort það sé smitað eða ekki. Fólk þyrfti að haga sér í samræmi við það að veiran sé enn í samfélaginu.
Alma Möller landlæknir benti jafnframt á að Íslendingar væru í meiri hættu varðandi smit, enda væru þeir í nánara samneyti en ferðamenn.