Snjódrífurnar eru komnar heim til sín en þær kláruðu að þvera Vatnajökul núna um helgina. Þrátt fyrir þreytu, bólgur, blöðrur og þurrar varir var létt yfir hópnum á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari og annar leiðangursstjóra ferðarinnar, á afmæli í dag og var því auðvitað sungið hátt fyrir hana á vellinum. Hópurinn var þakklátur fyrir að vera kominn heim og ætla þær að hittast aftur seinna í dag, borða góðan mat og halda upp á að þessum stóra áfanga er lokið.
„Ég held að þetta sé ein besta ferð sem ég hef farið í nokkurn tímann,“ sagði Vilborg Arna á Reykjavíkurflugvelli.
„Það var eitthvað svo sérstök stemning. Markmið hópsins var svo skýrt, það var ekki hver og ein að koma á sínum persónulegu forsendum að ná sínum persónulegu markmiðum, heldur voru allir að koma inn í þetta verkefni saman. Það var enginn stærri en verkefnið sjá og það er svo fallegt. Allur hópurinn var í takt, það var mjög mikil samkennd og allar voru að hjálpast að. Það var bara alveg ótrúleg stemning.“
Vilborg segir að það sem hafi staðið upp úr í þessari ferð hafi verið hópurinn sjálfur, að fá að vera hluti af þessum hóp kvenna.
„Svo voru geggjaðar stundir eins og upp í Grímsfjöllum þar sem við sátum úti og drukkum kakó. Það var svo flott útsýni til allra átta og milt og gott veður. Þetta eru stundir sem dýpka vináttuna alltaf. Það eru allir að upplifa það sama.“
Hópurinn safnaði áheitum fyrir Kraft og Líf, samhliða því að hvetja fólk til hreyfingar. Stofnaður var Facebook hópurinn Minn Lífskraftur. Þar hafa einstaklingar og hópar um allt land deilt sínum lífskrafti, hreyft sig og hvatt Snjódrífurnar áfram. Vilborg segist vera full þakklætis.
„Til allra sem að hafa tekið þátt með okkur, í áheitunum og þeim sem eru búnir að vera að ganga. Það eru gönguhópar úti um allt land sem hafa verið að taka þátt með okkur.“
Vilborg segir að hún hafi algjörlega fundið fyrir stuðningi og krafti frá öllum. Fram undan hjá henni er nú aðgerð og endurhæfing, þar sem hún er með slitið krossband.
„Ég er flutt með annan fótinn út til Slóveníu þar sem maðurinn minn býr og strákarnir hans. Ég ætla því að vera þar.“
Enn er hægt er að styðja við Lífskraft með því að senda SMS í símanúmerið 1900
Sendið textann LIF1000 fyrir 1.000 kr.
Sendið textann LIF3000 fyrir 3.000 kr.
Sendið textann LIF5000 fyrir 5.000 kr.
Sendið textann LIF10000 fyrir 10.000 kr.
Einnig er að styðja við Lífskraft með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010.