Erlent

Norður-Kórea sprengir sam­vinnu­stofnun Kóreu­ríkjanna á landa­mærunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Opnunarathöfn samvinnustofnunarinnar í Kaesong árið 2018.
Opnunarathöfn samvinnustofnunarinnar í Kaesong árið 2018. EPA/CHO SUNG-WOO/KOREA

Norður-Kórea hefur sprengt upp samvinnustofnun Kóreuríkjanna nærri landamærabænum Kaesong, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Suður-Kóreu

Skrifstofur stofnunarinnar hafa verið mannlausar síðan í janúar vegna kórónuveirutakmarkanna. Stofnunin opnaði árið 2018 til að auka og auðvelda samskipti milli ríkjanna tveggja eftir viðræður Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu.

Aðeins nokkrir klukkutímar eru liðnir frá því að her Norður-Kóreu lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn til að halda inn á hlutlausa svæðið sem aðskilur löndin tvö og hefur verið síðan vopnahléssamningarnir voru undirritaður á sjötta áratugi síðustu aldar.

Ástæðan er sú fullyrðing norðanmanna að fólk úr suðrinu sé að fara inn á svæðið í óleyfi til að koma áróðursplöggum til Norður Kóreu. Um liðna helgi sagði Kim Yo-jong, systir leiðtogans Kim Jong-un frá því að hún hafi skipað hernum að undirbúa aðgerðirnar og herinn hefur nú lýst sig reiðubúinn. Deilur milli ríkjanna tveggja hafa magnast undanfarið.

Fréttin var uppfærð klukkan 07:40.


Tengdar fréttir

Heita því að byggja upp öflugri her

Ríkisstjórn Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, ætlar að byggja upp öflugri her, til að verjast hernaðarógnun Bandaríkjanna.

Systir Kim skipar sér stærri sess

Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, virðist vera að skipa sér stærri sess í ríkisstjórn landsins. Hún hefur tekið yfir stjórn á samskiptum ríkisins við Suður-Kóreu og hefur mikil harka færst í leikana.

Hætta öllum samskiptum við suðrið

Norðurkóresk stjórnvöld hafa lokað öllum samskiptaleiðum milli Norður- og Suður-Kóreu. Þar á meðal er bein samskiptalína milli leiðtoga ríkjanna tveggja, Kim Jong-un í norðri og Moon Jae-in í suðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×