Erlent

Mót­mælin halda á­fram í Líbanon

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælendur komu meðal annars upp vegartálmum víðs vegar um höfuðborgina Beirút í nótt.
Mótmælendur komu meðal annars upp vegartálmum víðs vegar um höfuðborgina Beirút í nótt. Getty

Aðra nóttina í röð héldu mótmælaaðgerðir áfram í Líbanon þar sem mörg hundruð komu saman á götum borga víðs vegar um landið. Mótmælin beinast að stjórnvöldum í landinu og hvernig þau hafa tekið á efnahagsmálum.

Gengi gjaldmiðils landsins hefur rýrnað um 70 prósent síðan í október þegar mótmælaaldan í landinu hófst, en staða efnahagsmála í Líbanon hefur versnað enn frekar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Mótmælendur köstuðu í nótt steinum og öðru lauslegu að lögreglu í höfuðborginni Beirút og hafnarborginni Trípolí, auk þess að beina að þeim flugeldum. Lögregla beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum að mótmælendum.

Hrap gengis líbanska pundsins stöðvaðist nokkuð í gær eftir að Líbanonstjórn greindi frá því að seðlabanki landsins myndi dæla Bandaríkjadölum inn í hagkerfið til að stöðva gengishrunið. Sú aðgerð líbanska seðlabankans fer í framkvæmd eftir helgi.

Líbanir hafa margir þurft að fylgjast með sparnaði sínum fuðra upp síðustu mánuði og þá er rúmlega þriðjungur landsmanna án atvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×