Erlent

Skjótari viðbrögð hefðu getað fækkað dauðsföllum um helming

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra, gaf ekki út tilmæli um að fólk héldi sig heima vegna faraldursins fyrr en 23. mars, nokkru eftir að önnur ríki gripu til aðgerða. Hann segir of snemmt að segja til um hvers hans iðrist eða hvaða lærdóm er hægt að draga af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.
Boris Johnson, forsætisráðherra, gaf ekki út tilmæli um að fólk héldi sig heima vegna faraldursins fyrr en 23. mars, nokkru eftir að önnur ríki gripu til aðgerða. Hann segir of snemmt að segja til um hvers hans iðrist eða hvaða lærdóm er hægt að draga af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. AP/Kirsty Wigglesworth

Fyrrverandi vísindaráðgjafi breskra stjórnvalda segir að helmingi færri hefðu látist í kórónuveirufaraldrinum hefðu tilmæli um að fólk héldi sig heima verið gefin út viku fyrr. Bretland greip síðar til aðgerða vegna faraldursins en flest önnur vestræn ríki.

Á bilinu 40-50 þúsund manns hafa látist á Bretlandi í faraldrinum, eftir því hvort dauðsföll þar sem grunur leikur á Covid-19-smiti eru talin með eða ekki, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látið lífið.

Neil Ferguson, faraldsfræðingur, sagði þingnefnd í dag að stjórnvöld hefðu gripið til réttra aðgerða en of seint. Fólki var ekki sagt að halda sig heima fyrr en 23. mars.

„Faraldurinn tvöfaldaðist á þriggja til fjögurra daga fresti áður en takmörkunum var komið á. Hefðum við gefið út tilmæli um að fólk héldi sig heima viku fyrr hefðum við dregið úr endanlegum fjölda látinna um að minnsta kosti helming,“ sagði Ferguson.

Ferguson er faraldfræðingur við Imperial College í London og var áður í vísindaráðgjafahópi bresku ríkisstjórnarinnar. Líkan sem hann herði af faraldrinum er sagt hafa rekið ríkisstjórnina til aðgerða gegn faraldrinum. Hann sagði af sér eftir að hann var sakaður um að brjóta gegn tilmælum stjórnvalda þegar hann leyfði ástkonu sinni að koma í heimsókn.

Gagnrýni Ferguson rímar við orð Johns Edmunds, annars vísindaráðgjafa ríkisstjórnarinnar, um helgina en hann sagði að eftir á að hyggja hefðu stjórnvöld átt að grípa til aðgerða fyrr.


Tengdar fréttir

Seinagangur á Bretlandi talinn hafa kostað mannslíf

Vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar segist óska þess að gripið hefði verið til aðgerða gegn kórónuveirufaraldrinum fyrr vegna þess að tafirnar hafi kostað mannslíf. Hann kennir lélegum gögnum við upphaf faraldursins um þær ákvarðanir sem voru teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×