Erlent

Hætta öllum samskiptum við suðrið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kim Jong-un er einræðisherra í Norður-Kóreu.
Kim Jong-un er einræðisherra í Norður-Kóreu. JORGE SILVA/EPA

Norðurkóresk stjórnvöld hafa lokað öllum samskiptaleiðum milli Norður- og Suður-Kóreu. Þar á meðal er bein samskiptalína milli leiðtoga ríkjanna tveggja, Kim Jong-un í norðri og Moon Jae-in í suðri.

Svo virðist sem öllum tengslum milli ríkjanna hafi verið slitið á hádegi að staðartíma, eða klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma.

Venja var að tvö símtöl væru hringd á degi hverjum milli ríkjanna, eitt klukkan níu að morgni og annað klukkan fimm síðdegis. Í gær segja suðurkóresk stjórnvöld hins vegar að morgunsímtali þeirra hafi ekki verið svarað, þó að síðan hafi náðst samband yfir landamærin síðar um daginn. Það reyndist vera síðasta símtalið milli landanna, í það minnsta í bili.

Í yfirlýsingu sem birst hefur í norðurkóreskum ríkismiðlum segir að engin þörf sé á samskiptum milli ríkjanna.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að óþarfi sé að sitja augliti til auglitis við suðurkóresk stjórnvöld, og að fyrir hendi sé ekkert vandamál til að ræða við þau. Þau hafa aðeins ýtt undir vonbrigði okkar,“ segir í yfirlýsingunni.

Álykta má að samskiptaleysið tengist máli sem upp kom í síðustu viku. Þá hótaði Kim Yo-jong, systir Kim Jong-un, að slíta hernaðarsamkomulagi milli ríkjanna tveggja. Ástæðan var óánægja hennar með að suðurkóresk stjórnvöld virtust senda áróðursbæklinga yfir landamærin með blöðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×