Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður ÍBV og Vals í gæsluvarðhaldi - Hóstaði á lögreglu og sagðist vera með Covid

Sindri Sverrisson skrifar
James Hurst lék með Val og ÍBV hér á landi á sínum tíma.
James Hurst lék með Val og ÍBV hér á landi á sínum tíma.

James Hurst, fyrrverandi leikmaður ÍBV og Vals í fótbolta, hefur verið settur í gæsluvarðhald í Skotlandi í kjölfar þess að hann meðal annars hóstaði að lögregluþjónum og sagðist vera með kórónuveiruna.

Hurst, sem er 28 ára gamall, lék með ÍBV árið 2010 og með Val hluta af tímabilunum 2013 og 2014. Samkvæmt BBC viðurkenndi hann fyrir dómi að hafa hagað sér með ógnandi hætti í garð lögregluþjónanna en hann tók æðiskast í garði við heimili konu í Glasgow í apríl.

Hurst var handtekinn eftir að hafa meðal annars kallað lögreglumennina illum nöfnum og sagt þá vera skoska þræla sem ættu að vinna fyrir sig. Samkvæmt saksóknara sagði Hurst svo: „Ég er með Covid. Ég ætla að hósta og hrækja á ykkur alla.“ Hann hafi svo byrjað að hósta framan í andlit lögreglumanna um leið og þeir handjárnuðu hann. Hurst, sem er enskur, sagðist vera frá landi drottningarinnar og hélt áfram að fullyrða að skoska lögreglan væri ekkert annað en þrælar í sínum augum.

Hurst, sem hefur áður verið dæmdur fyrir að aka undir áhrifum áfengis, fær að vita refsingu sína í kringum næstu mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×