Mælar Veðurstofunnar hafa numið fjóra jarðskjálfta með upptök skammt norð-austur af Hveragerði það sem af er degi.
Skjálftahrinan hófst klukkan 9:16 í morgun þegar skjálfti af stærðinni 1,7 reið yfir en upptök hans voru að finna á 3,7 kílómetra dýpi 1,6 kílómetra norð-austur af Hveragerði. Ellefu mínútum síðar fannst annar skjálfti sem átti upptök sín á svipuðum slóðum en sá mældist ögn stærri eða 1,8.
Tveir minni skjálftar hafa síðan mælst á svæðinu en klukkan 10:33 mældist skjálfti 0,7 og tæpri klukkustund síðar mældist skjálfti 0,5 að stærð.
Líkt og raunin hefur verið undanfarna mánuði hefur mest skjálftavirkni mælst í nágrenni við fjallið Þorbjörn við Grindavík en skjálftar af stærðunum 1,6 og 1,9 hafa mælst á þeim slóðum í morgun.