Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair á miðvikudaginn klukkan 14. Síðast komu samningsaðilar saman þann 20. maí en þar hafnaði flugfreyjufélagið „lokatilboði“ Icelandair sem fól í sér krónutöluhækkanir á laun og um 12 prósenta hækkun á lægstu laun.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við fréttastofu að í ljós verði að koma á fundinum hver staðan sé. Ekki sé hægt að segja til um það hver tilboð samningsaðila verði að svo stöddu.
Á síðasta fundi sleit flugfreyjufélagið viðræðum og sagði Guðlaug í samtali við fréttastofu eftir þann fund að í tilboði Icelandair fælist aukið vinnuframlag, allt frá 8 prósenta til 20 prósenta. „Það eru launahækkanir sem samræmast þó ekki almennum vinnumarkaði. Þetta eru of stórir bitar sem ekki er hægt að sætta sig við.“