Nýsköpunarkeppninni Hack the Crisis Iceland lýkur á hádegi í dag. Beina útsendingu frá verðlaunaafhendingunni má sjá hér að neðan. Að sögn aðstandenda er um að ræða stærsta starfræna „hakkaþon“ sem haldið hefur verið hér á landi en næstum 200 tóku þátt í mótinu.
Hakkaþonið hófst 22. maí og stóð yfir alla helgina í formi beinna vefútsendinga og fjarfunda. Alls bárust yfir 64 lausnir, sem gera samtals 128 lausnir, því teymin máttu skila lausninni í tvo flokka. Skipuleggjendur segja að í ljósi áhugans hafi þurft að framlengja dómarastörf um einn dag til að velja tólf bestu verkefnin til kynningar í fimm flokkum.
Flokkarnir eru:
- Nýskapandi lausnir í heilbrigðisþjónustu
- Nýskapandi lausnir í félags- og velferðarmálum
- Nýskapandi lausnir í menntamálum
- Nýskapandi lausnir í atvinnumálum
- Opinn flokkur
Þau teymi sem sigra í hverjum flokki fá 500.000 kr. í verðlaunafé, Design thinking hraðal og aðstöðu á frumkvöðlasetri þar sem sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Reykjavíkurborgar annast fræðslu, stuðning og eftirfylgni.
Keppendur komu hvaðanæva að úr heiminum og voru sum keppnisteymanna samsett af fólki í mismunandi heimsálfum. Þátttakendur utan Íslands voru m.a. frá Englandi, Bandaríkjunum, Kína, Brasilíu, Danmörku, Egyptalandi, Mexíkó og Kólumbíu.
Úrslit verða tilkynnt í dag í beinu streymi frá Stúdíó Sýrlandi og hefst verðlaunaafhendingin klukkan 12.00. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mun vera með opnunarræðu og afhenda verðlaun. Nánari upplýsingar um keppnina má nálgast hér.