Erlent

Dauðs­föll í New York færri en hundrað síðasta sólar­hring

Sylvía Hall skrifar
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AP/Darren McGee

Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 voru 84 í New York-ríki síðastliðinn sólarhring. Er þetta í fyrsta sinn síðan í lok mars sem dauðsföll eru færri en hundrað.

109 dóu sólarhringinn á undan en ríkið hefur farið einna verst út úr faraldrinum í Bandaríkjunum með yfir 28 þúsund dauðsföll. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segist hafa beðið eftir þeim degi þar sem dauðsföll yrðu færri en hundrað á sólarhring.

„Það gerir ekkert gott fyrir þessar 84 fjölskyldur sem eru að upplifa sársaukann,“ sagði Cuomo en bætti þó við að fækkunin væri merki um að hlutirnir væru að þróast í rétta átt.

Á föstudag tilkynnti Cuomo að tíu manns mættu koma saman í lögmætum tilgangi innan ríkisins. Fólk ætti þó að forðast það eftir fremsta megni að hittast í hópum og aðeins gera það ef nauðsynlegt væri.

Lang flestir hafa látist úr kórónuveirunni sem veldur Covid-19 í Bandaríkjunum, eða 96 þúsund manns að því er fram kemur á vef BBC. Þar á eftir kemur Bretland með yfir 36 þúsund dauðsföll.


Tengdar fréttir

„Bóluefni má ekki bara vera fyrir þau ríku“

Bóluefnið verður að vera aðgengilegt fyrir alla. Við getum ekki látið stöðuna verða þá að eingöngu þau ríku geti verið bólusett vegna þess að eitt fyrirtæki eigi réttinn að framleiðslu bóluefnisins,“ sagði Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York á blaðamannafundi sínum vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Telja mun fleiri hafa látist í Bandaríkjunum í upphafi faraldursins

Allt að tvöfalt fleiri gætu hafa látist af völdum nýs afbrigðis kórónuveiru í Bandaríkjunum á fyrstu vikum faraldursins en opinberar tölur segja til um. Rúmlega fimmtán þúsund fleiri dauðsföll urðu í Bandaríkjunum í mars en á venjulegu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×