Ákveðið hefur verið að aflýsa tímabilinu í norska handboltanum vegna kórónuveirunnar. Norska handknattleikssambandið greindi frá þessu í dag.
Fyrst bárust fréttir um að úrslitakeppninni í efstu deild karla og kvenna hefði verið aflýst en núna er ljóst að fleiri leikir í deildakeppninni fara ekki fram.
Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Guðjónsson hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir Elverum sem er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar.
Sigvaldi gengur í raðir pólska stórliðsins Kielce eftir tímabilið.
Norska handknattleikssambandið fundar nú um næstu skref, hvað gera skuli varðandi hvaða lið falla eða fara upp um deild og hvaða lið fá Evrópusæti.