Innlent

Hlut­fall nagla­dekkja hærra í vetur en síðustu ár

Atli Ísleifsson skrifar
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík.
Gatnamót Miklabrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Hlutfall negldra dekkja í Reykjavík er töluvert hærra í ár en í fyrra og síðastliðin ár.

Þetta er niðurstaða talningar sem kynnt var í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar á miðvikudag, en það var verkfræðistofan EFLA sem stóð fyrir talningunni sem fram fór fimmtudaginn 16. apríl.

Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að hlutfallið hafi skipst þannig að 40 prósent ökutækja hafi reynst vera á negldum dekkjum og 60 prósent á ónegldum.

„Hlutfall negldra dekkja er nánast það sama og í síðustu talningu, 3. mars 2020 en þá var það 41%.

Í fyrra voru ökumenn fljótir að skipta um dekk en þá var einnig talið um miðjan apríl og var hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum töluvert minna, eða 31%. Fyrir tveimur árum var hlutfallið enn lægra eða 22%. Skýringarnar á því hversu hægt gekk núna að skipta er að leita í COVID 19 en sömu sóttvarnarreglur gilda á dekkjaverkstæðum eins og annars staðar.

Talningarstaðir voru Mjóddin, Kringlan, Miðbærinn við Höfnina, Háskóli Íslands við Háskólabíói. Talið er sex sinnum á ári,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×