Erlent

Réttar­höld í máli skip­stjórans á Dóná hefjast

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið átti sér stað undir Margrétarbrúnni í Búdapest að kvöldi 29. maí síðastliðinn.
Slysið átti sér stað undir Margrétarbrúnni í Búdapest að kvöldi 29. maí síðastliðinn. EPA

Réttarhöld í máli skipstjóra skemmtiferðaskips sem rakst á smærri útsýnisbát á Dóná í ungversku höfuðborginni Búdapest með þeim afleiðingum að 28 manns fórust, hófust í dag.

Útsýnisbáturinn sökk fáeinum sekúndum eftir áreksturinn, en flestir um borð voru suður-kóreskir ferðamenn. Atvikið átti sér stað í maí síðastliðinn.

Yuri Chaplinsky, 64 ára úkraínskur skipstjóri skemmtiferðaskipsins Vikyn Sigyn, neitar því sem fram kemur í ákæru. Er hann sakaður um vanrækslu sem leiddi til dauða fjölda manns og að ekki hafa aðstoðað þá sem höfnuðu í ánni sem skyldi. 

Segja saksóknarar hann ekki hafa fylgst nægilega vel með ferð skipsins þar sem hann stýrði skipinu. Úrhelli var á svæðinu þegar slysið varð. Slysið var það mannskæðasta á Dóná í heil þrjátíu ár.

Chaplinsky hefur áður hafnað boð um sátt sem hefði falist í níu ára fangelsisvist og níu ár til viðbótar án skipstjórnarréttinda. Hann hafði starfað á ánni í fjörutíu ár og þar af þrjátíu sem skipstjóri.

Áreksturinn varð undir Margrétarbrúnni í Búdapest um klukkan 21 að kvöldi 29. maí síðastliðinn. Alls voru 35 manns um borð í útsýnisbátnum og tókst að bjarga átta þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×