Fara verður allt aftur til ársins 1920 til að finna meiri samdrátt í efnahagsmálum þjóðarinnar en verður á þessu ári að mati Seðlabankans. Ef kórónuveiran fer ekki aftur á kreik í haust reiknar bankinn hins vegar með skjótum bata á næsta ári.
Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði meginvexti sína um 0.75 prósentur eða í eitt prósent í morgun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að einnig verði hætt að veita viðskiptabönkum 30 daga bundinn innlán til að örva útlán og peningamagn í umferð.

„Við viljum mæta þessu áfalli með lækkun vaxta. Við viljum líka stuðla að því að fjármagnskostnaður bæði heimila og fyrirtækja lækki á þessum erfiðu tímum,“ segir Ásgeir.
Það er til marks um efnahagssamdráttinn að Seðlabankinn spáir því að fjöldi ferðamanna verði svipaður á þessu ári og hann var á árinu 2005. Og að gengi krónunnar verði svipað og það var árið 2015 þegar ferðamönnum tók að fjölga til mikilla muna.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að þá verði atvinnuleysi á þessu ári meira en það var eftir bankahrunið árið 2009.

„Horfur eru á mesta samdrætti á einu ári í eina öld hér á landi. Afleiðingarnar verða mikil fækkun starfa. Mjög mikil stytting vinnutíma og atvinnuleysi fer í sögulegar hæðir,“ segir Þórarinn. Í apríl hafi samanlagt 17,8 prósent mannaflans ýmist verið atvinnulaus eða á hlutabótaleið. Bankinn spái að atvinnuleysið fari í 12 prósent í haust en verði um 9 prósent á árinu í heild.
Fjölgun ferðamanna ræðst mikið af því hversu hratt umheimurinn jafnar sig á kórónuveiru faraldrinum. Frá byrjun mars á þessu ári til 15. maí í fyrra fóru daglega um fjórtán til sautján þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll.
„Við reiknum með því í okkar spá að það komi eitthvað um þrjúhundruð þúsund ferðamenn á fyrri hluta ársins til landsins. En á seinni hluta ársins verði þeir einungis eitthvað um 50 þúsund. þannig að samtals komi eitthvað um 400 þúsund ferðamenn til landsins sem er svipaður fjöldi og árið 2005,“ segir Þórarinn.

Það yrði 81 prósent fækkun ferðmanna milli ára og þjónustuútflutningur drægist saman um 53 prósent.
„Og yrði það mesti samdráttur sem við höfum séð þar frá því mælingar hófust.“ Þá hafi farsóttin haft áhrif á annan útflutning eins og sjávarafurðir.
„Þegar á öðrum ársfjórðungi erum við komin með vísbendingar um verulegan samdrátt í útflutningi sjávarafurða og við erum að spá að hann verði 12 prósent á árinu öllu. Sem yrði mesti samdráttur í útflutningi sjávarafurða í næstum því fjóra áratugi,“ segir Þórarinn.
Seðlabankastjóri segir að ef kórónuveiran rjúki ekki aftur af stað gætu efnahagshorfur batnað hratt í vetur og á næsta ári. Þá muni gengislækkun krónunnar að undanförnu einnig hjálpa til.
„Lægra gengi örvar íslenskt atvinnulíf. Sérstaklega þegar fram í sækir. Það býr til ný störf. Það skýtur alveg nýjum stoðum undir ferðaþjónustuna. Það er mun betra að örva hana þannig heldur en með öðrum hætti,“ segir Ásgeir Jónsson.