Icelandair hefur undanfarna daga rætt við stærstu hluthafa félagsins um að koma með eigið fé í reksturinn.
Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir þessu og segir vinnuna miða að því að ekki þurfi að koma til þess að ríkið stígi inn í og komi félaginu til bjargar.
Heimildir blaðsins herma ennfremur að verið sé að skera flugflota félagsins verulega niður. Til greina komi að minnka flotann um helming, allt niður í tólf vélar.
Reyna á að endursemja við flugmenn og flugliða því lengi hefur legið fyrir að launakostnaður hjá Icelandair sé afar hár, í samanburði við samkeppnisaðila.
Þannig hafi laun flugliða hjá Icelandair verið allt að 35 prósent hærri en hjá WOW air og laun flugmanna Icelandair 20 til 30 prósent hærri.