Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa hækkað tölu yfir skráð dauðföll sem rakin eru til Covid-19 í borginni Wuhan um 1.290, eða nærri 50 prósent. Skráð dauðsföll í borginni hafa verið um 3.300 í Kína um nokkurra vikna skeið, en sú tala var hækkuð í 4.600 í morgun.
Kórónuveirufaraldurinn er talinn hafa átt upptök sín í borginni Wuhan í lok síðasta árs og breiddist svo út um heim allan.
Hækkunin nú er meðal annars sögð vera rakin til þess að fleiri dauðsföll vegna covid-19 sem áttu sér stað utan sjúkrahúsa hafi nú verið tekin saman og heildartölur uppfærðar.
Talsmaður heilbrigðisyfirvalda segir að ekki sé verið að hylma yfir raunverulegt ástand í landinu, en Donald Trump Bandaríkjaforseti er í hópi þeirra sem hefur sakað kínversk yfirvöld um að birta ekki tölur yfir raunverulegan fjölda smita og dauðsfalla.
Ellefu milljónir íbúa Wuhan voru í sóttkví í ellefu vikur í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veirunnar, en nýlega var byrjað að slaka á aðgerðumí borginni vegna veirunnar.
Alls hafa greinst um 82 þúsund kórónuveirusmit í Kína, og eru skráð dauðsföll þar nú um 4.600.