Fótbolti

Hólmar í Búlgaríu: Forseti félagsins flúði land en stuðningsmennirnir halda félaginu á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson er 29 ára gamall og kom til Levski Sofia árið 2017, fyrst á láni en svo var hann keyptur. Hann hefur skorað 6 mörk í 51 deildarleik með liðinu.
Hólmar Örn Eyjólfsson er 29 ára gamall og kom til Levski Sofia árið 2017, fyrst á láni en svo var hann keyptur. Hann hefur skorað 6 mörk í 51 deildarleik með liðinu. Getty/Stuart Franklin

Á þessum miklum óvissu tímum er Íslenski landsliðsmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson líklega að upplifa meiri óvissu en flestir íslenskir leikmenn á erlendri grundu.

Hólmar Örn Eyjólfsson spilar með Levski Sofia í Búlgaríu en fjárhagsstaða félagsins er mjög slæm. Eigandinn og forseti félagsins, Vasil Bozhkov, er flúinn til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Bozhkov er almennt talinn vera ríkasti maður Búlgaríu en um leið hefur hann í langan tíma verið orðaður við ólöglega starfsemi í undirheimum.

Búlgarska ríkið hefur höfðað mál gegn hinum 63 ára gamla Vasil Bozhkov fyrir yfirgripsmikla glæpastarfsemi og Búlgarar vilja nú fá hann framseldan til landsins svo réttarhöld yfir honum geti farið fram.

„Stuðnings­menn­irn­ir hafa staðið fyr­ir alls kon­ar söfn­un­um, keypt miða á „sýnd­ar­leiki“ sem fóru ekki fram vegna kór­ónu­veirunn­ar, og maður er bú­inn að heyra ít­rekað á und­an­förn­um mánuðum að í næstu viku verði fé­lagið gjaldþrota. En stuðnings­menn­irn­ir ná alltaf að safna sam­an nægi­lega mikl­um pen­ing­um til að halda þessu gang­andi, sem er hreint með ólík­ind­um," segir Hólmar í viðtali við Víði Sigurðsson í Morgunblaðinu í dag.

Stuðningsmenn Levski Sofia er alvöru stuðningsmenn en þeir hafa frá 12. febrúar síðastliðnum náð að redda félaginu meira en einni milljón evra sem jafngildir meira en 156 milljónum íslenskra króna.

Búlgarska deildin á að byrja aftur 5. júní eftir kórónaveirufaraldurinn en Levski Sofia er í öðru sæti deildarinnar, níu stigum frá toppnum.

Hólmar, sem er að klára sitt þriðja tímabil hjá liðinu, er samningsbundinn í eitt tímabil í viðbót en veit ekki hvað gerist í framhaldinu.

„Það verður bara að koma í ljós þegar nýir eigendur taka við hvernig þeir vilja standa að framhaldinu hjá félaginu. Það gætu vel orðið miklar breytingar á rekstrinum þannig að óvissan er mikil sem stendur. En í félaginu er mikið af góðu fólki sem gerir allt til þess að Levski komi sem best út úr þessu," segir Hólmar í viðtalinu í Morgunblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×