Fjölmörgum Vesturbæingum er ekki skemmt þessa stundina. Í annað skiptið á fjórum dögum hafa verið unnin skemmdarverk á vegglistaverki á grindverki á Hofsvallagötu. Listaverkið er eftir listamanninn Juan Pictures og er upp úr tölvuleiknum sívinsæla Super Mario.
Vísir greindi frá því á annan í páskum að lögregla hefði verið kölluð til vegna konu sem hafði málað yfir Hallgrímskirkju, sem var hluti af listaverkinu. Nú virðist sem spreyjað hafi verið yfir hluta af verkinu.
Ólöf Magnúsdóttir, eigandi grindverksins, sagði í samtali við Vísi ótrúlega gaman hve vel fólkið í hverfinu hefði tekið listaverkinu.
Málið var tilkynnt til lögreglu á mánudaginn sem ræddi við konuna. Ólöf sagðist ekki ætla að kæra konuna en vonaði til þess að verkið fengi að vera í friði héðan í frá. Listamaðurinn Juan mætti svo til samstundis og lagaði skemmdirnar.

Síðan hafa liðið rúmir þrír dagar og aftur hafa verið unnar skemmdir á verkinu.
„Lögreglan er búin að koma í dag og við búin að láta vita að við viljum gera eitthvað í málunum núna. Ég veit ekki hver þetta er eða hvað vakir fyrir henni. En mig langar pínu að fara bara að vola núna,“ segir Ólöf í umræðuþræði um málið í hverfishópnum Vesturbærinn á Facebook.
Listamaðurinn Juan segist ætla að laga skemmirnar aftur um leið og veður bjóði upp á það.
„Ég er tilbúin að laga verkið þúsund sinnum,“ segir Juan.
Vesturbæingar skilja hvorki upp né niður í hegðun konunnar. Margir telja augljóst að viðkomandi eigi við veikindi að stríða.
Arnar Tómas Valgeirsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, er með kenningu á hnyttnum nótum.
„Hún er pottþétt bara bitur Sega Mega eigandi,“ segir Arnar Tómas og vísar til samkeppnisaðila í leikjatölvubransanum.
Vesturbæingar virðast upp til hópa ánægðir með listaverkið og hvetja aðra til þess að láta frjáls framlög af hendi renna til listamannsins sem gerði það endurgjaldslaust.
Fréttin var uppfærð með myndum af Juan að laga skemmdirnar seinni partinn.