Innlent

Slakað á heimsóknabanni á sjúkrahúsinu á Akureyri eftir helgi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur takmarkað heimsóknir í kóróuveirufaraldrinum eins og aðrar heilbrigðisstofnanir. Slakað verður á reglum um heimsóknir á mánudaginn.
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur takmarkað heimsóknir í kóróuveirufaraldrinum eins og aðrar heilbrigðisstofnanir. Slakað verður á reglum um heimsóknir á mánudaginn. Vísir/Vilhelm

Heimsóknir verða leyfðar með vissum takmörkunum á legudeildum sjúkrahússins á Akureyri frá og með mánudegi. Landspítalinn tilkynnti fyrr í dag að slakað yrði á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins á kvennadeild eftir helgi.

Aðeins einn fullorðinn gestur fær að heimsækja sjúkling í hverjum heimsóknartíma, að því er segir í tilkynningu sem birtist á vef sjúkrahússins á Akureyri í kvöld. Gestur má hafa fylgdarmann með sér inn og út af deild.

Gestir mega hvorki hafa kvefeinkenni, hita, hósta slappleika eða beinverki eða hafa verið í tengslum við Covid-19-smitaðan einstakling undanfarna fjórtán daga. Þá verða gestir að virða tveggja metra fjarlægðarreglu og spritta sig.

Sjúkrahúsið áskilur sér jafnframt rétt til að setja frekari takmarkanir á heimsóknir til sjúklinga sem eru sérstaklega viðkvæmir.

Landspítalinn tilkynnti í dag að aðstandendum verði í ríkari mæli leyft að fylgja konum á kvennadeild frá og með mánudeginum. Þannig fá aðstandendur meðal annars að fylgja konum í fósturgreiningu, dvelja með þeim eftir fæðingu og heimsækja á meðgöngu- og sængurlegudeild og fæðingarvakt.


Tengdar fréttir

Aðstandendur fá að fylgja konum á kvennadeild eftir helgi

Opnað verður fyrir að aðstandendur fái að fylgja konum á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu á Landspítalanum í flestum tilfellum frá og með mánudeginum 18. maí, þar á meðal í ómskoðun og eftir fæðingu. Ákveðnar takmarkanir verða þó áfram í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×