Fótbolti

Efast um að landsleikirnir verði spilaðir í september

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson og félagar fá kannski ekkert að spila gegn Rúmeníu á þessu ári.
Kolbeinn Sigþórsson og félagar fá kannski ekkert að spila gegn Rúmeníu á þessu ári. vísir/vilhelm

Victor Montagliani, varaforseti FIFA, óttast að ekki verði hægt að spila landsleiki í fótbolta fyrr en á næsta ári vegna kórónuveirunnar. Hann segir að ástandið sé afar erfitt og formsatriðið verði að klára deildirnar.

Nú þegar hefur EM og Suður-Ameríkukeppninni sem átti að fara fram í sumar, verið frestað til sumarsins 2021, en Þjóðadeildin sem og umspilsleikir fyrir EM næsta sumar áttu að fara fram í vetur. Varaforsetinn er ekki viss hvort að hægt verði að spila þá leiki.

„Ég held að það verði áskorun, ekki bara vegna heilsufarslega ástæðna og útbreiðslu faraldursins, heldur einnig að ferðast svo stuttu eftir að við komum til baka. Ég held að deildarkeppnirnar verði aðalatriðið. September er áfram opin en ég er ekki viss hvort að það verði möguleiki eins og staðan er núna,“ sagði Victor.

Ísland og Rúmenía áttu að mætast í undanúrslitum í umspilinu fyrir laust sæti á EM næsta sumar. Fyrst átti leikurinn að fara fram í mars, svo var honum frestað fram í júní en nú er alls óvíst hvenær hann fer fram.

„Ef við fáum grænt ljós á að spila fótboltaleiki þá efast ég um að það verði fyrir framan áhorfendur. Ég bara get ekki séð það. Ég hugsa að það væri of mikil áhætta.“

Montagliani er einnig forseti knattspyrnusambanda Norður og Mið-Ameríku en hann er einn af þeim sem leiðir vinnu FIFA í að endurskipuleggja dagatal samabndsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×