Erlent

Kjósa frekar að greiða atkvæði utan kjörfundar vegna kórónuveirunnar

Andri Eysteinsson skrifar
Frá kjörstað í Seoul.
Frá kjörstað í Seoul. Chung Sung-Jun

Suður-Kóreumenn hafa nýtt utankjörfundarkjörstaði í miklum mæli fyrir þingkosningarnar sem fara fram í landinu næsta miðvikudag. BBC greinir frá því að metfjöldi hafa mætt á kjörstað síðustu tvo daga.

Rekja má þennan metfjölda utankjörfundaratkvæða til faraldurs kórónuveirunnar sem dreifst hefur um heimsbyggðina undanfarnar vikur og mánuði. Vegna veirunnar þurfa allir kjósendur að klæðast bæði hönskum og andlitsgrímum auk þess að allir eru hitamældir áður en þeir fá kjörseðil í hendurnar.

Tuttugu og sjö smit voru staðfest í Suður-Kóreu á undanförnum sólarhring og hafa því alls greinst 10.450 smit. Fjórir létust í asíuríkinu og hafa því alls 208 látist vegna veirunnar.

Miðpunktur faraldursins í Suður-Kóreu var í borginni Daegu en yfirvöld þar í bæ tilkynntu að engin ný smit hefðu greinst þar í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×