Körfubolti

Þórsarar ræddu við Inga Þór

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór hélt sæti sínu í Domino's deild karla þrátt fyrir að enda í 11. sæti hennar.
Þór hélt sæti sínu í Domino's deild karla þrátt fyrir að enda í 11. sæti hennar. vísir/bára

Fyrir utan Íslandsmeistara KR er Þór Akureyri eina liðið í Domino's deild karla sem á eftir að ráða þjálfara fyrir næsta tímabil. Lárus Jónsson hætti sem þjálfari Þórs í vor og færði sig yfir til nafna þeirra í Þorlákshöfn.

„Við erum í viðræðum við aðila og það lítur ágætlega út,“ sagði Hjálmar Pálsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, í samtali við Vísi, aðspurður hvernig þjálfaraleitin gengi.

Hjálmar segir að Þórsarar hafi rætt við Inga Þór Steinþórsson sem var látinn fara frá KR í síðustu viku.

„Við ræddum við hann en hann er ekki á leiðinni til okkar. Það hentaði honum ekki að koma út á land núna skildist mér,“ sagði Hjálmar.

Hann vonast til að þjálfaramál Þórs skýrist eftir helgi. Liðið endaði í 11. sæti Domino's deildar karla á síðasta tímabili en hélt sæti sínu í deildinni þar sem aðeins eitt lið (Fjölnir) féll.

Þórsarar eru byrjaðir að safna liði fyrir næsta tímabil og fyrr í vikunni sömdu þeir við serbneska framherjann Srdjan Stojanovic. Hann lék með Fjölni í vetur og var áttundi stigahæsti leikmaður Domino's deildarinnar með 20 stig að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×