Erlent

Framlengja félagsforðun og vilja fækka nýjum smitum í 50 á dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Fámennt í undirgöngum í Suður-Kóreu.
Fámennt í undirgöngum í Suður-Kóreu. AP/Ahn Young-joon

Yfirvöld Suður-Kóreu tilkynntu í gær aðgerðir gegn dreifingu nýju kórónuveirunnar, sem átti að ljúka á morgun, verða framlengdar um tvær vikur. Þann tíma vilja Kóreumenn nota til að fækka nýjum smitum í 50 á dag. Síðustu daga og vikur hefur nýjum smitum fjölgað um um það bil hundrað á dag.

Flest smiti greindust þann 29. febrúar eða 813.

Í gær voru ný smit alls 81 og á föstudaginn 94. Tæplega helmingur smitanna í gær greindust þó í aðilum sem voru að koma til Suður-Kóreu frá öðrum löndum, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar.

Heilt yfir hafa greinst 10.237 smit í Suður-Kóreu og 183 eru dánir.

Áhugavert er að bera þær tölur saman við Bandaríkin en fyrstu smitin greindust á sama degi í báðum löndum, eða þann 20. janúar. Í Bandaríkjunum hafa þó síðan greinst 312.249 smit og 8.503 hafa dáið.

Borgarstjórn Seoul, höfuðborgar Suður-Kóreu, tilkynnti í morgun að gripið yrði til aðgerða gegn kirkju þar sem messa var haldin í dag, annan sunnudaginn í röð. Með því brutu forsvarsmenn kirkjunnar gegn samkomubanni yfirvalda. Sérstöku banni hafði verið beitt gegn kirkjunni eftir að messa var haldin þar 22. mars.

Samkomubannið, sem framlengt var í dag, verður nú í gildi til 19. apríl, nema það verði framlengt aftur. Í yfirlýsingu í dag sagði Chung Sye-kyun, forsætisráðherra, að Kóreumönnum stæði ekkert annað til boða. Þó íbúar séu nú þegar mun öruggari en þeir voru fyrir skömmu síðan og í betri stöðu en mörg ríki Evrópu og Bandaríkin, sé enn nauðsynlegt að stunda félagsforðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×