Willum Þór Willumsson spilaði í rúmlega tuttugu mínútur er Bate Borisov vann 5-3 sigur á FC Smolevichi í hvít-rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Boltinn heldur áfram að rúlla í Hvíta-Rússlandi en þeir stöðvuðu aldrei deildina vegna kórónuveirunnar, heldur héldu áfram að spila mörgum til mikillar undrunar.
Bate lenti 1-0 undir strax á 1. mínútu en fyrir hlé höfðu þeir komið sér í þægilegt forskot 3-1. Þeir mættu hins vegar illa til leiks í síðari hálfleik og eftir átján mínútur í síðari hálfleik var allt orðið jafnt, 3-3.
Willum var þá sendur á vettvang og Nemanja Milic gerði tvö mörk áður en yfir lauk. Willum og félagar eru á toppi deildarinnar með 16 stig en þeir hafa nú unnið fjóra leiki í röð.