Viðskipti erlent

Flestir starfs­menn Face­book og Goog­le vinna heima til 2021

Sylvía Hall skrifar
Google gerir ráð fyrir því að opna skrifstofur sínar í júní.
Google gerir ráð fyrir því að opna skrifstofur sínar í júní. Vísir/Getty

Starfsmenn hjá stórfyrirtækjunum Facebook og Google munu að öllum líkindum vinna heima hjá sér til ársins 2021. Þegar kórónuveirufaraldurinn fór á kreik gripu fyrirtækin til þeirra ráða að láta starfsmenn vinna heiman frá og mun aðeins lítill hluti starfsmanna snúa aftur á næstu mánuðum.

Google gerir ráð fyrir því að byrja að opna skrifstofur sínar aftur í júní en aðeins tíu til fimmtán prósent starfsmanna munu starfa á skrifstofunum sjálfum. Meirihluti mun því halda sig heima og sinna vinnu þar en þeim verður þó heimilt að mæta á skrifstofurnar þegar nauðsyn krefur.

Fyrirtækið hefur jafnframt boðað frídag fyrir alla starfsmenn sína þann 22. maí svo þeir geti slakað á eftir mikið álag undanfarna mánuði.

Þá mun Facebook opna flestar skrifstofur sínar þann 6. júlí næstkomandi en þeir sem vilja og geta munu vinna heima hjá sér til ársloka. Mark Zuckerberg forstjóri Facebook segir fyrirtækið í góðri stöðu því flestir starfsmenn geta sinnt starfi sínu vel án þess að mæta á skrifstofurnar.

„Flestir starfsmenn Facebook eru svo heppnir að geta sinnt vinnu sinni á skilvirkan hátt heima, svo við finnum til ábyrgðar og viljum leyfa fólki sem hefur ekki þennan sveigjanleika að fá aðgang að almannagæðum fyrst,“ sagði Zuckerberg í síðasta mánuði. Jafnframt geti fyrirtækið þannig spornað gegn frekari útbreiðslu kórónuveirunnar og flýtt fyrir því að samfélagið komist aftur í fyrra horf.

Yfir 95% starfsmanna Facebook vinna nú heima hjá sér en um 48 þúsund starfa fyrir fyrirtækið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×