Erlent

Telja Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Victor Orban er forsætisráðherra Ungverjalands. Hann hefur nú sankað að sér miklum, svo gott sem algjörum, völdum.
Victor Orban er forsætisráðherra Ungverjalands. Hann hefur nú sankað að sér miklum, svo gott sem algjörum, völdum. EPA/ Andreas Schaad

Ungverjaland, Svartfjallaland og Serbía eru ekki lengur lýðræðisríki. Þetta er mat bandarísku hugveitunnar Freedom House sem birti árlega skýrslu sína um stöðu lýðræðis í dag.

Að mati Freedom House hefur lýðræði átt undir högg að sækja í ríkjum allt frá Mið-Evrópu til Mið-Asíu. Þróunin er einna skýrust í fjórum ríkjum síðasta áratuginn. Það er í Póllandi, Ungverjalandi, Svartfjallalandi og Serbíu. Hugveitan flokkar síðastnefndu ríkin þrjú ekki lengur sem lýðræðisríki, heldur á milli einræðis og lýðræðis. Og Pólland stefnir í sömu átt.

Skýrsluhöfundar segja að einræðistilburðir Vucic Serbíuforseta og Dukanovic, forseta Svartfjallalands, séu afar greinilegir. Þá segir í skýrslunni að Lög og réttlæti, pólski stjórnarflokkurinn, grafi undan lýðræðinu með aðgerðum gegn sjálfstæði dómstóla.

Einna mesta gagnrýni fær Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem er sagður ráðast trekk í trekk á grundvallarstoðir lýðræðis í landinu. Þess er vert að geta að ungverska þingið, sem flokkur Orbáns stýrir, samþykkti í apríl að heimila Orbán að stýra alfarið með tilskipunum í ótilgreindan tíma. Aldrei hefur Freedom House séð jafnhraða þróun í átt frá lýðræði.

Evrópusambandið og Bandaríkin fá sinn skerf af gagnrýni fyrir að hafa ekki barist af meiri hörku gegn þessari þróun. Þá eru Rússar og Kínverjar sagðir auka ítök sín á svæðinu og reyna að notfæra sér veikra stöðu margra ríkja í Mið-Asíu, Mið- og Austur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×