Erlent

Bresk kona sakfelld fyrir að ljúga um hópnauðgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Tveir ísraelsku mannanna sem voru sakaðir um að hafa nauðgað bresku konunni þegar þeir voru leiddir fyrir dómara í júlí.
Tveir ísraelsku mannanna sem voru sakaðir um að hafa nauðgað bresku konunni þegar þeir voru leiddir fyrir dómara í júlí. Vísir/EPA

Dómstóll á Kýpur sakfelldi nítján ára gamla breska konu í dag fyrir að ljúga til um að henni hefði verið nauðgað af hópi ísraelskra ungmenna í Ayia Napa í júlí. Konan fullyrti að kýpverska lögreglan hefði fengið hana til að bera ljúgvitni um atburðina en lögreglan hafnar því.

Refsing konunnar verður ákveðin 7. janúar en hún gæti yfir höfði sér allt að árs fangelsi fyrir að spilla almannareglu. Lögmenn hennar krefjast þess að refsing hennar verði skilorðsbundin. Þeir telja ýmsar forsendur til að áfrýja dómnum.

Tólf ísraelsk ungmenni voru handtekin vegna ásakana konunnar en þeim var síðar sleppt og leyft að halda heim á leið. Konan sat í gæsluvarðhaldi í meira en mánuð áður en henni var sleppt gegn tryggingu í lok ágúst. Hún hefur sætt farbanni síðan, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Lögmaður fjölskyldu konunnar segir að dómstóllinn hafi reitt sig á yfirlýsingu þar sem hún dró ásakanir sínar til baka þrátt fyrir að hún hafi skrifað undir hana án þess að hafa lögmann sér til stuðnings. Það sé brot á mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá gagnrýndi hann dómarann fyrir að neitað að hlýða á sönnunargögn um hvort nauðgunin hafi átt sér stað. Saksóknarar héldu því fram að konan hefði sett ásakanir sínar sjálfviljug fram en dregið þær til baka tíu dögum síðar. Konan fullyrti fyrir dómi að það hefði hún gert undir hótunum um að hún yrði handtekin og að henni hafi verið meinað að ræða við lögmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×