Skoðun

Topp tíu 2019

Dagur B. Eggertsson skrifar

Hef verið í nánast sjálfskipuðu fjölmiðlabanni yfir jólin en viðurkenni að mér finnst skemmtilegt að horfa aðeins um öxl áður en kemur að áramótum. Áramót er bæði tími þakklætis fyrir árið sem liðið er og tími vonar þegar horft er fram á nýtt ár. Ég viðurkenni að síðasti vetur var einhver sá þyngsti sem ég man eftir og ég byrjaði árið 2019 með staf mér við hlið. En lífið varð smám saman léttara undir fæti með hækkandi sól. Stafnum hef ég getað lagt með hjálp markvissrar og öflugrar lyfjameðferðar við gigtinni. Ég sprauta mig áfram einu sinni í viku og þannig helst þessi þráláti sjúkdómur í skefjum. Þetta er miklu betri staða en ég þorði að vona fyrir rúmu ári síðan þótt ég hafi þurfti að breyta ýmsu. En það er kannski bara hollt að taka til í gömlum siðum og ósiðum af og til. Á árs afmæli veikindanna lét ég meðal annars ljósmyndara Morgunblaðsins plata mig til að klifra upp í nýja og fallega vitann okkar við Sæbraut. Það var góð tilfinning. Ég hef óneitanlega margt til að vera þakklátur fyrir. Yndislega fjölskyldu. Frábært samstarfsfólk. Lífsgæðaborg.

Starfsfólk borgarinnar stendur sig

Það er ekki alltaf fyrir séð hvað fær mesta athygli fjölmiðla af vettvangi borgarinnar. Á hverjum degi vinnur almennt starfsfólk borgarinnar frábær störf í umönnun, kennslu og velferðarþjónustu, snjómokstri, sorphirðu, skipulagi eða borgarhönnun og því að gera borgina fallegri svo fátt eitt sé talið. Garðyrkjudeildin er til dæmis ein þeirra sem er búin að brillera á árinu. Velferðarsviðið hefur líka verið á fleygiferð með nýjungar í þjónustu, NPA-samninga, margs konar búsetuúrræði og nýtt neyðarskýli fyrir vímuefnaneytendur. En hvað kemst í fréttir? Það getur verið önnur saga. Það kom mér reyndar skemmtilega á óvart að sjá að fréttin um „hjólandi borgarstjórann“ var sú mest lesna á árinu hjá Kjarnanum. Ekki bara af borgarfréttum heldur yfir höfuð! Það er ótrúlega margt sem hægt væri að hafa mörg orð um af vettvangi borgarinnar sem er sífellt í framþróun og miklum blóma. Ég er ekki frá því að nýliðið ár sé – ólíkt því sem einhverjir spáðu í upphafi - eitt það afkastamesta og árangursríkasta í langan tíma. Hér er einhvers konar topp tíu listi ársins af vettvangi borgarmálanna:

Tímamóta samningar

  1. Samningur um Borgarlínu, Miklubraut í stokk, stórátak í gerð hjóla- og göngustíga: samgöngupakkinn.
  2. Samningur um að innanlandsflug flytjist í Hvassahraun reynist það flugvallarstæði góður kostur.

Húsnæði fyrir alla

  1. Aldrei hafa fleiri íbúðir verið í byggingu í borginni og aldrei hærra hlutfall þeirra á fjölbreyttum þéttingarsvæðum og á vegum óhagnaðardrifinna byggingarfélaga sem byggja fyrir alls konar fólk.
  2. Byggingarverkefnum fyrir eldri borgara lauk í Mörk og Mjódd. Yfir fjögur hundruð stúdentaíbúðir eru langt komnar og ódýrar leiguíbúðir Bjargs eru í byggingu á fimm stöðum í borginni.

Borg fyrir börn

  1. Full fjármögnuð uppbyggingaráætlun í leikskólamálum var samþykkt til að taka megi inn yngri börn og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  2. Börnin í borginni stóðu sig best allra landhluta í nýbirtri Pisa-könnun. Skólaþróun fékk byr í seglin með nýrri menntastefnu og nýjum þróunar- og nýsköpunarsjóði fyrir skóla- og frístund.

Jafnrétti

  1. Kynbundinn launamunur sem ekki skýrist af starfsaldri, menntun og fleiri afmörkuðum þáttum er kominn í 0,06%.
  2. Reykjavíkurborg hefur fengið jafnlaunavottun.

Traustur rekstur

  1. Stjórnkerfi borgarinnar var einfaldað og umbætur gerðar á fjölmörgum sviðum.
  2. Rekstur borgarinnar skilar afgangi, fjárfestingar eru í sögulegu hámarki og fjárhagsstaðan er sterk hvort sem litið er til borgarsjóðs eða fyrirtækja borgarinnar.

Höfundur er borgarstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×