Erlent

Gáfu frá sér meira en 50 þúsund byssur

Samúel Karl Ólason skrifar
Flestar tegundir hálf-sjálfvirkra byssa voru bannaðar og hefur lögregla Nýja Sjálands á undanförnum sex mánuðum keypt slík vopn af íbúum.
Flestar tegundir hálf-sjálfvirkra byssa voru bannaðar og hefur lögregla Nýja Sjálands á undanförnum sex mánuðum keypt slík vopn af íbúum. AP/Nick Perry

Íbúar Nýja-Sjálands hafa gefið frá sér meira en 50 þúsund byssur eftir að skotvopnalög landsins voru hert í kjölfar þess að 51 var myrtur í tveimur moskum í Christchurch í mars. Flestar tegundir hálf-sjálfvirkra byssa voru bannaðar og hefur lögregla Nýja Sjálands á undanförnum sex mánuðum keypt slík vopn af íbúum.

Frumvarpið var samþykkt á sínum tíma af 119 þingmönnum landsins og einungis einn var andsnúinn því. Verkefni þessu lauk á föstudaginn og í nótt var árangurinn tíundaður af yfirvöldum landsins.

33 þúsund manns skiluðu inn 51 þúsund byssum sem voru gerðar ólöglegar. Þar að auki var fimm þúsund byssum skilað inn vegna verkefnis þar sem lögreglan lofaði því að spyrja engra spurninga um þær en greiddi ekki fyrir vopnin.

Eigendur 2.700 byssa breyttu þeim svo þær stönguðust ekki á við lögin og lögreglan segist hafa tekið um 1.600 byssur af glæpasamtökum frá því í mars.

New Zealand Herald hefur eftir Mike Clement, yfirmanni lögreglunnar, að ljóst sé að íbúar skilji tilgang laganna.



„Við vonumst til þess að upplifa aldrei aftur árás eins og þá sem átti sér stað í Christchurch,“ sagði Clement. Hann viðurkenndi ferlið hafi verið mörgum erfitt

Gagnrýnendur segja lögin þó gölluð og fjölmargir byssueigendur hafi einfaldlega falið vopn sín. NZ Herald hefur eftir formanni samtaka byssueigenda í Nýja-Sjálandi samtökin áætli að um 170 þúsund byssur séu nú ólöglegar í landinu. Þannig sé ljóst að 50 þúsund sé ekki tala sem yfirvöld eigi að stæra sig af.

AP fréttaveitan hefur einnig eftir henni að fólki hafi ekki verið greitt nægjanlega fyrir byssur sínar. Þá hafi byssueigendur misst trúna á yfirvöld og þeim finnist þeim sjálfum hafa verið kennt um hryðjuverkaárásina.

Yfirvöld undirbúa frekari aðgerðir eins og það að stofna skrá yfir byssur landsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×