Innlent

Sjúkraþjálfurum heimilt að rukka eftir eigin gjaldskrá um miðjan janúar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sjúkraþjálfarar fagna niðurstöðu gerðardóms
Sjúkraþjálfarar fagna niðurstöðu gerðardóms Vísir/getty

Sjúkraþjálfarar fagna niðurstöðu gerðardóms í deilu þeirra við Sjúkratryggingar Íslands og segja sér heimilt frá og með miðjum janúar að rukka sjúklinga eftir sinni eigin gjaldskrá.

Í nóvember ákváðu Félag sjúkraþjálfara og Sjúkratryggingar Íslands að fela gerðardómi að úrskurða um lagalega óvissu um gildistíma rammasamnings eftir að sjúkraþjálfarar ákváðu að starfa ekki lengur eftir samningnum. 

Fyrir helgina úrskurðaði gerðardómur svo í deilunni. Í fréttatilkynningu á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að dómurinn sýni að sjúkraþjálfurum hafi verið óheimilt að hætta að starfa samkvæmt samningnum og að innheimta önnur gjöld af sjúklingum en kveðið er á í samningnum.

Unnur Pétursdóttir formaður Félags sjúkraþjálfara segir sjúkraþjálfara fagna úrskurðinum „Við erum í rauninni afskaplega ánægð með þessa niðurstöðu. Niðurstaðan fellur algjörlega okkar megin varðandi þá túlkun að við erum ekki bundin af því að þessum útrunna samningi við Sjúkratryggingar Íslands sé sagt upp með sex mánaða fyrirvara. Þannig að gerðardómari fellst algjörlega á okkar málflutning hvað það varðar,“ segir Unnur.

Hún segir úrskurðinn hafa mikla þýðingu fyrir sjúkraþjálfara. „Þetta þýðir það að sjúkraþjálfarar, eftir 12. janúar, geta sett sína eigin gjaldskrá,“ segir Unnur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×