Erlent

Mikil eyði­legging eftir Phanfone

Sylvía Hall skrifar
Talið er að um hundrað fjölskyldur hafi misst heimili sín.
Talið er að um hundrað fjölskyldur hafi misst heimili sín. Vísir/EPA

Fjöldi fólks er látið og hundrað fjölskyldur hafa misst heimili sín eftir að fellibylurinn Phanfone gekk yfir Filippseyjar. Fellibylurinn náði landi á þriðjudagskvöld en gekk yfir miðbik Filippseyja yfir jóladag.

Vindhviður byljarins náðu tæplega 53 metrum á sekúndu. Mikið tjón hefur orðið á eyjunum og þá sérstaklega nærri svæðum sem urðu hvað verst úti þegar fellibylurinn Haiyan gekk yfir í nóvember árið 2013 með þeim afleiðingum sex þúsund manns létust. Haiyan varð þá mannskæðasti stormur sem landsins frá upphafi en vindhraðinn náði þá rúmlega 86 metrum á sekúndu.

Á vef BBC er haft eftir staðarmiðlum að í það minnsta tíu séu látnir, þar á meðal þriggja ára drengur. AFP greinir frá því að í það minnsta sextán séu látnir. Flest dauðsföllin hafa orðið í Iloilo og Capiz.

Staðir á ferðamannaeyjunni Boracay virðast einnig hafa orðið fyrir tjóni þó ekki liggi fyrir hversu umfangsmikið það sé.

Samkvæmt formanni Rauða krossins í Filippseyjum gæti tekið einhverjar vikur að ná aftur rafmagni og hreinu vatni á svæðum sem hafa orðið hvað verst úti. Þá sé fjöldi fólks búið að missa heimili sín og þurfi að verða sér úti um mat. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×