Gerwyn Price tryggði sér sæti í 8-manna úrslitum heimsmeistaramótsins í pílukasti með sigri á Simon Whitlock, 4-2, í Alexandra Palace í gær.
Price skaut föstum skotum á Whitlock eftir leikinn og sakaði hann um seinagang.
„Hraðinn í leiknum hentaði mér ekki. Ég held að Simon hafi gert það viljandi,“ sagði Price.
„Leikurinn var spilaður á sorglega litlum hraða. En ég læri af þessu og geri betur næst þegar ég lendi í þessum aðstæðum.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það kastast í kekki milli þeirra Price og Whitlock. Það gerðist einnig á Grand Slam Darts í fyrra.
Á sama móti sakaði fyrrverandi heimsmeistarinn Gary Anderson Price fyrir seinagang og stæla. Price var fundinn sekur um að hafa komið óorði á pílukastið og sektaður um 20.000 pund. Sú upphæð var lækkuð um helming eftir að Price áfrýjaði úrskurðinum.
Í 8-manna úrslitunum í dag mætir Price Glen Durrant. Leikur þeirra hefst klukkan 20:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.
Sakaði mótherja sinn um sorglegan seinagang
