Lífið

Leikarinn Danny Aiello er látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Aiello lærði aldrei leiklist en sagðist hafa nýtt sér lífsreynslu sína í hlutverkum sínum.
Aiello lærði aldrei leiklist en sagðist hafa nýtt sér lífsreynslu sína í hlutverkum sínum. Getty/Patrick McMullan

Bandaríski leikarinn Danny Aiello, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Sal í kvikmyndinni Do the Right Thing, er látinn 86 ára að aldri.

Fulltrúi fjölskyldu hans tilkynnti fjölmiðlum þetta í dag. Hann er sagður hafa látist á sjúkrastofnun í New Jersey þar sem hann hlaut aðhlynningu eftir skyndileg veikindi.

Aiello hefur leikið yfir hundrað hlutverk á ferli sínum, þar af mörg þekkt og bitastæð á borð við Jonny Cammareri í Moonstruck og Tony Rosato í The Godfather II. Hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í myndinni Do the Right Thing.

Hann fæddist á Manhattan í New York og var yngstur sex systkina. Móðir hans fæddist í Napólí á Ítalíu og giftist föður hans þegar hún var fimmtán ára gömul.

Aiello átti skrautlega ævi og hefur lýst því þegar hann hætti í skóla eftir áttunda bekk og tók þátt í ránum sem hluti af glæpagengi á sínum yngri árum.

Í ævisögu sinni sem kom út árið 2014 greindi hann frá æsku sinni og heimsóknum sínum til föður síns sem þá var í fangelsi.

Hér fyrir neðan má sjá Danny Aiello sýna meistaraleik sem eigandi pizzastaðsins Sal's í kvikmyndinni Do the Right Thing.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.