Innlent

Spænsk kona tekin með kókaín í Leifsstöð: „Þetta er algjör sprenging“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Sjö eru í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum í sjö aðskildum málum fyrir smygl á hörðum fíkniefnum til landsins. Embættið hefur aldrei lagt hald á eins mikið af sterkum efnum og í ár, eða 63 kíló.

Mikið álag hefur verið á lögreglunni á Suðurnesjum undanfarna mánuði enda hafa umfansgmikil fíkniefnamál aldrei verið fleiri.

Í desember hafa fjögur aðskilin mál komið upp þar sem lögregla hefur lagt hald á um tvö kíló af kókaíni.

Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum

„Tollgæslan hefur stöðvað fjóra einstaklinga sem voru ýmist með innvortis eða með í farangri sínum. Þetta eru karlmenn á sextugsaldri, kona á fertugsaldri, ungur maður á tvítugsaldri,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. 

Þá eru þrír til viðbótar í gæsluvarðhaldi grunaðir um fíkniefnainnflutning. Síðasta málið kom upp síðastliðinn laugardag en þá var spænsk kona tekin með 700 grömm af kókaíni.

Árið 2017 haldlagði lögreglan á Suðurnesjum 46 kíló af hörðum fíkniefnum en aðeins fjórtán kíló í fyrra. Mest er um kókaín og amfetamín.

„En svo núna virðist þetta vera algjör sprenging og það sem af er ári erum við að tala um 63 kíló af hörðum fíkniefnum,“ segir Jón Halldór. 

Hann segir að málin séu ekki fleiri heldur að meira sé flutt inn í einu af hættulegri efnum. Augljóst sé að eftirspurnin sé meiri en áður.

„Efnin sem við erum að haldleggja eru sterkari en þau sem við höfum verið að leggja hald á í gegn um tíðina. Við erum að sjá yngri og yngri neytendur og það er bara komin tími til að íslensk stjórnvöld og kerfið allt saman myndi sér skoðun og stefnu í því hvernig við ætlum að vinna á þessu,“ segir Jón Halldór. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×