Lögregla í Noregi beinir nú sjónum sínum að sporum sem fundust á heimili Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs, sem var rænt af heimili sínu í Lørenskógi í lok október í fyrra. Gengið er út frá því að gerandi í málinu, íklæddur skóm af gerðinni Sprox, hafi skilið sporin eftir. Kaupendur Sprox-skópara eru því til rannsóknar hjá lögreglu, einkum þeir sem eiga afbrotaferil að baki.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan hún hvarf og hefur lögreglan orðið lítils vísari. Talið er ráðist hafi verið inn á heimili Anne-Elisabeth og hún að öllum líkindum verið myrt, þrátt fyrir skilaboð frá meintum mannræningjum um að hún sé enn á lífi.
Í september staðfesti lögreglan að rannsóknin beindist nú einna helst að umslagi og pappírsörk sem fannst á heimilinu en mannræningjarnir skildu eftir bréf á vettvangi þar sem þeir kröfðust milljóna í lausnargjalds í órekjanlegri rafmynt.
Þá greindi lögregla frá því á blaðamannafundi í haust að hún rannsaki fótspor sem fundust á heimilinu. Eins og áður segir eru sporin rakin til karlmanns sem klæddist skóm af tegundinni Sprox. Skórnir fást aðeins í tuttugu og fjórum verslunum Spar Buy-verslunarkeðjunnar í Noregi.

Í frétt norska dagblaðsins VG segir að maðurinn hafi skilið eftir sig spor á nokkrum stöðum í húsinu, bæði á flísum og teppi. Maðurinn noti skó númer 44, 45 eða 46. Tommy Brøske yfirmaður rannsóknardeildar hjá norsku lögreglunni segir í samtali við VG að lögregla gangi út frá því að sporin tilheyri geranda í málinu.
Þá greinir VG jafnframt fá því að lögregla hafi nú í vetur yfirheyrt fólk sem hefur keypt Sprox-skó í verslunum Spar Buy. Talið er að um 1500 pör af Sprox-skónum sem um ræðir hafi verið seld í Noregi á árunum 2016 til 2018.
Til þess að þrengja hið stóra úrtak beini lögregla einkum sjónum sínum að viðskiptavinum Spar Buy-verslana í grennd viðLørenskóg, sem og Sprox-kaupendum sem eigi að baki afbrotaferil. Kaupendur í síðarnefnda hópnum séu allmargir en sérstaklega er bent á í frétt VG að Sprox-skór séu tákn um bága samfélagsstöðu.