Erlent

Morðingja leitað eftir að karl og kona fundust myrt í Maniitsoq á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá bænum Maniitsoq. Þar búa um 2.800 manns.
Frá bænum Maniitsoq. Þar búa um 2.800 manns. Mynd/Visit Greenland.

Tveir einstaklingar fundust myrtir síðastliðna nótt í íbúð í bænum Maniitsoq á vesturströnd Grænlands. Hin látnu voru karlmaður á sjötugsaldri og liðlega fimmtug kona og höfðu þau verið stungin með hníf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu lögreglunnar á Grænlandi, sem þarlendir fjölmiðlar greina frá í dag. 

Lögreglan hefur ekki fundið morðingjann og hefur óskað eftir aðstoð almennings um upplýsingar sem hjálpað gætu við að hafa uppi á hinum seka. Þá hefur grænlenska lögreglan óskað eftir aðstoð dönsku ríkislögreglunnar og eru þrír rannsóknarlögreglumenn væntanlegir frá Danmörku til Grænlands á morgun. 

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að hún hafi fengið tilkynningu klukkan hálftvö í nótt frá einstaklingi sem kom að hinum látnu í íbúðinni. Frekari upplýsingar hafa ekki verið veittar um málið. 

Um 2.800 manns búa í Maniitsoq, sem er sjötti stærsti bær landsins. Hann hét áður Sukkertoppen en bærinn er um 150 kílómetra norðan við Nuuk, á eyju skammt undan meginlandi Grænlands.

Morðtíðni er hærri á Grænlandi en á hinum Norðurlöndunum, eins og fram kom í frétt um ofbeldisglæpi í landinu, sem sýnd var á Stöð 2 fyrir þremur árum:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×