Fundi samninganefnda Samtaka atvinnulífsins og Blaðamannafélags Íslands var slitið á fimmta tímanum, án niðurstöðu. Aðstoðarsáttasemjari átti frumkvæði að fundarslitunum en ekki hefur verið boðað til annars fundar í deilunni.
Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum félaganna undanfarna mánuði. Blaðamenn á vefmiðlum, auk ljósmyndara og tökumanna, hafa þrisvar lagt niður störf í yfirstandandi kjaradeilu og boðað hefur verið til vinnustöðvunar hjá blaðamönnum prentmiðla á fimmtudag.
Sú vinnustöðvun er síðasta verkfallsaðgerðin sem félagsmenn Blaðamannafélagsins sem vinna hjá miðlum Árvakurs, Ríkisútvarpsins, Sýnar og Torgs samþykktu með 83 prósent atkvæða í lok október.
Félagsmenn Blaðamannafélagsins greiddu atkvæði um samningstilboð SA í liðinni viku, eftir að félagið hafði skotið verkföllum á frest vikunni áður. Rúmlega sjötíu prósent blaðamanna höfnuðu tilboðinu.
Blaðamenn Vísis eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands.
