Innlent

Lýsa yfir vilja til að efla samfélagslega nýsköpun

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Steinunn Hrafnsdóttir og Ómar H. Kristmundsson.
Steinunn Hrafnsdóttir og Ómar H. Kristmundsson. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í dag verður undirrituð viljayfirlýsing nýsköpunarráðherra, Háskóla Íslands og Almannaheilla, samtaka þriðja geirans um samstarf til að efla samfélagslega nýsköpun. Verður unnið að því að auka möguleika félagasamtaka á að starfa að félagslegum umbótum innan stofnunar sem fær heitið Vaxandi – miðstöð samfélagslegrar nýsköpunar.

„Við stefnum að því að skapa vettvang félaga og almennra borgara til að þróa hugmyndir og lausnir við að bæta samfélagið og gera þær sjálfbærar,“ segir Ómar H. Kristmunds­son, prófessor á félagsvísindasviði Háskóla Íslands, en verkefnið grundvallast á tíu ára rannsóknarvinnu hans og Steinunnar Hrafnsdóttur, sem einnig er prófessor við sama svið.

Samfélagsleg nýsköpun tengist hinum svokallaða þriðja geira. Þriðji geirinn, eða félagshagkerfið, er í raun það starf sem hvorki heyrir til hins opinbera né einkageirans. Hér eru á ferðinni félagasamtök að stærstum hluta en í sumum tilvikum sjálfseignarstofnanir, samvinnufélög og jafnvel hlutafélög. Það sem einkennir þennan rekstur er að ekki er sóst eftir hagnaði, félagsleg gildi eru höfð að leiðarljósi og verkefni eru unnin að einhverju leyti í sjálfboðavinnu.

Yfirlýsingin verður undirrituð klukkan 10 í sal Þjóðminjasafnsins. Ávörp flytja Ómar, Steinunn, Jón Atli Benediktsson rektor, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra, Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla, og Lars Hulgaard, prófessor við Hróarskelduháskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×