Lífið

Cold­play sleppir tón­leika­ferða­lagi vegna um­hverfis­sjónar­miða

Atli Ísleifsson skrifar
Chris Martin á tónleikum Coldplay í Brasilíu árið 2017.
Chris Martin á tónleikum Coldplay í Brasilíu árið 2017. Getty
Breska hljómsveitin hyggst sleppa því að fara í tónleikaferðalag í tengslum við útgáfu nýrrar plötu sinnar. Eru það umhverfissjónarmið sem ráða ákvörðuninni en vitað er að kolefnisfótspor tónleikaferðalaga vinsælla sveita getur reynst mjög mikið.

„Við veltum því nú fyrir okkur hvernig umhverfið geti hagnast á tónleikaferðalagi okkar,“ segir söngvarinn Chris Martin í samtali við BBC.

„Við verðum öll að finna bestu leiðina til að standa okkur,“ segir Martin. Vilji liðsmenn sveitarinnar að framtíðartónlistarferðalög þeirra „hafi jákvæð áhrif“ og verði í það minnsta kolefnisjöfnuð.

Nýjasta plata sveitarinnar,  Everyday Life, kemur út á morgun og er sveitin nú í jórdönsku höfuðborginni Amman þar sem hún treður upp í tvígang á tónleikum sem verður streymt beint á YouTube. Fara þeir fram á morgun, við sólarupprás annars vegar og sólarlag hins vegar.

Sveitin tróðu upp 122 sinnum í alls fjórum heimsálfum á síðasta tónleikaferðalagi sínu á árunum 2016 og 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×