Viðskipti innlent

Sainsbury's hætt að kaupa fisk af Samherja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Breska verslunarkeðjan Sainsbury's er hætt að kaupa frosinn fisk af dótturfélagi Samherja í Bretlandi. Ákvörðun um slíkt tengist ekki Samherjamálinu og var tekin áður en það kom upp, að því er fram kemur á vef Undercurrent News sem sérhæfir sig í fréttum af sjávarútvegsmálum.

Í frétt Undercurrent News segir að tveir kínverskir framleiðendur hafi komið í stað Ice Fresh Seafood, dótturfyrirtækis Samherja í Bretlandi, og Sainsburys fái nú þorsk, ýsu, ufsa og lax frá þeim, í stað Ice Fresh Seafood.

Fyrirtækið keypti stærri verksmiðju í Bretlandi árið 2017 til þess að sinna aukinni eftirspurn frá Sainsbury's og Marks & Spencer. Í frétt Undercurrent News segir hins vegar að með brotthvarfi Sainsbury's sem viðskiptavinar standi verksmiðjan frammi fyrir verkefnaskorti.

Sjá einnig: Taka ásökunum á hendur Samherja alvarlega

Áður hefur verið sagt frá því að breskir stórkaupendur á íslenskum fiski fylgist náið með Samherjamálinu. Þannig var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum að talsmaður Marks & Spencer krefjist þess af birgjum sínum að þeir stundi viðskipti á siðferðislegan og löglegan hátt. Verslunarkeðjan taki ásökunum um mútugreiðslur í Samherjamálinu í Namibíu alvarlega. Fylgst sé náið með framvindu mála.

Í frétt Undercurrent News er hins vegar haft eftir heimildarmanni sem þekkir til málsins að ákvörðun Sainsbury's um að hætta að skipta við Ice Fresh Seafood tengist ekki Samherjamálinu. Ákvörðun um slíkt hafi verið tekin áður en það kom upp.


Tengdar fréttir

Samherjamenn undirbúa varnirnar

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa minnst fjórir forystumenn Samherja ráðið lögmenn til að undirbúa varnir vegna ásakana á hendur fyrirtækinu um mútubrot og skattaundanskot.

Taka ásökunum á hendur Samherja alvarlega

Formaður fiskútflytjenda er sannfærður um að aðilar hér á landi hafi nú þegar fundið fyrir áhrifum kaupenda erlendis vegna Samherjamálsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×