Stjórnvöld Mjanmar voru í dag sökuð um þjóðarmorð fyrir Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna vegna aðfarar þeirra gegn minnihlutahópi Róhingja. Lögmenn biðluðu til dómstólsins að fyrirskipa að gripið yrði til aðgerða til að „stöðva þjóðarmorðin eins og skot.“
Gambía lagði fram kæruna fyrir hönd Félags um íslamskt samstarf (e. Organization of Islamic Cooperation).
Dómsmálaráðherra og ríkissaksóknari Gambíu, Abubacarr Marie Tambadou, sagði í samtali við fréttastofu AP að hann vildi „senda Mjanmar og öllu alþjóðasamfélaginu skýr skilaboð um að veröldin mun ekki sitja hjá aðgerðarlaus þegar slík grimmdarverk gerast í kring um okkur. Það er kynslóð okkar til skammar ef við gerum ekkert á meðan þjóðarmorð á sér stað fyrir augum okkar.“
Stjórnvöld í Mjanmar vildu ekki tjá sig um málið við vinnslu fréttar AP.
Mjanmarski herinn hóf ofbeldisfulla aðför gegn Róhingjum í ágúst árið 2017 eftir að andófsmenn gerðu árás fyrr í mánuðinum. Meira en 700.000 Róhingjar flúðu til nágrannalandsins Bangladess til að flýja árásir hersins en þar fóru fram fjöldamorð, fjöldanauðganir og heimili voru brennd til kaldra kola.
Yfirmaður sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í Mjanmar skrifaði í lokaskýrslu sinni í september síðastliðnum að það væri mikil hætta á að þjóðarmorð yrðu á Róhingjum á ný.
Þá sagði sendinefndin í skýrslunni að láta ætti Mjanmar taka ábyrgð á alþjóðlegum vettvangi vegna þjóðarmorðanna.
Tímamótamál
Í stefnunni sem var lögð fram fyrir Alþjóðadómstólinn er því haldið fram að hernaðaraðgerðir Mjanmar gegn Róhingjum, sem meðal annars fólu í sér „dráp, ollu alvarlegum líkamlegum- og andlegum skaða, ollu aðstæðum sem ætlaðar voru til þess að valda miklum skaða og að koma í veg fyrir fæðingar og að neyða fólk af heimkynnum sínum, hafi verið þjóðarmorð vegna þess að ætlun þeirra var að útrýma Róhingjum að hluta til eða að öllu leiti.“
Tambadou sagði í yfirlýsingu: „Gambía hefur tekið af skarið að sækja réttlætis og gera einhvern ábyrgan fyrir þjóðarmorðunum sem hafa átt sér stað í Mjanmar gegn Róhingjunum og til að halda uppi og styrkja alþjóðlega staðla gegn þjóðarmorðum sem öll ríki munu virða.“
Param-Preet Singh, sérfræðingur í mannréttindum hjá Human Rights Watch, segir málið tímamótamál og hvatti önnur ríki til að styðja það.
Þá sagði hann að ef alþjóðadómstóllinn myndi fyrirskipa aðgerðir gæti það „hjálpað við að stöðva versta langvarandi ofbeldið gegn Róhingjum í Mjanmar.“
Beindi því til stríðsglæpadómstólsins að hefja rannsókn
Fatou Bensouda, saksóknari við Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn, sendi dómurum stríðsglæpadómstólsins beiðni í júlí síðastliðnum um að hefja rannsókn á meintum glæpum gegn mannkyni gegn Róhingjum í Mjanmar.
Hann sagðist vilja rannsaka glæpi tengda útlegð og meinta ómannúðlega framgöngu mjanmarska hersins gegn Róhingjum þegar þeir voru neyddir til að yfirgefa Mjanmar, sem er ekki meðlimur alþjóðadómstólsins, inn í Bangladess, sem er meðlimur.
Stríðsglæpadómstóllinn tekur fyrir mál sem beinast gegn einstaklingum en Alþjóðadómstóllinn tekur fyrir deilur á milli ríkja. Báðir dómstólar eru staðsettir í Haag.
Í síðasta mánuði sagði sendiherra Mjanmar hjá Sameinuðu þjóðunum, Hau Do Suan, sendinefndina horfa aðeins á aðra hlið málsins og hafi byggt skýrslu sína á „villandi upplýsingum og að heimildamenn hafi ekki verið viðstaddir því sem þeir sögðu frá.“
Hann sagði að mjanmarska ríkisstjórnin horfi málið alvarlegum augum og að allir þeir sem hafi brotið mannréttindi og hafi valdið stórtækum fólksflutningum til Bangladess þyrftu að taka ábyrgð á gjörðum sínum.