Winks og Mount skoruðu sín fyrstu landsliðsmörk í stórsigri á Kósóvó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Winks fagnar sínu fyrsta marki fyrir enska landsliðið.
Winks fagnar sínu fyrsta marki fyrir enska landsliðið. vísir/getty
England vann 0-4 sigur á Kósóvó í Pristina í lokaleik sínum í undankeppni EM 2020 í kvöld.

Englendingar unnu A-riðilinn, fengu 21 stig af 24 mögulegum og voru með markatöluna 37-6.

Tékkar fylgja Englendingum upp úr riðlinum. Þeir töpuðu fyrir Búlgörum, 1-0, í kvöld. Vasil Bozhikov skoraði eina mark leiksins.

Harry Winks kom Englandi á bragðið á 32. mínútu í Pristina með sínu fyrsta landsliðsmarki.

Nafni hans úr Tottenham, Harry Kane, bætti öðru marki við á 79. mínútu. Kane skoraði í öllum átta leikjum Englands í undankeppninni og er markahæsti leikmaður hennar með tólf mörk. Kane er fyrsti Englendingurinn sem skorar í öllum leikjum í undankeppni stórmóts.



Marcus Rashford skoraði svo þriðja markið á 83. mínútu og í uppbótartíma skoraði Mason Mount fjórða mark Englands og sitt fyrsta landsliðsmark.

Kósóvó endaði í 3. sæti riðilsins en fer í umspil um sæti á EM í mars á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira