Fótbolti

Sterling: Rangt að púa á Gomez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gomez bíður þess að komast inn á.
Gomez bíður þess að komast inn á. vísir/getty
Raheem Sterling segir að það hafi verið rangt hjá stuðningsmönnum enska landsliðsins að púa á Joe Gomez þegar hann kom inn á í 7-0 sigri Englands á Svartfjallalandi á Wembley í gær. Með sigrinum tryggðu Englendingar sér sæti á EM 2020.

Sterling lék ekki með Englandi í gær. Honum lenti saman við Gomez á landsliðsæfingu á mánudaginn og landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate setti hann út úr hópnum fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi.

Hluti áhorfenda á Wembley lét óánægju sína í ljós þegar Gomez kom inn á þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Sterling var undrandi á þeim viðbrögðum.

„Það var erfitt að sjá púað á liðsfélaga minn fyrir eitthvað sem var mér að kenna,“ skrifaði Sterling á Twitter.

„Joe gerði ekkert af sér og að púa á einhvern sem leggur sig svona mikið fram, sérstaklega eftir erfiða viku, var rangt að mínu mati. Ég tek fulla ábyrgð og samþykkti afleiðingarnar.“



Leikurinn í gær var þúsundasti landsleikur Englands og enska liðið hélt upp á tímamótin með stórsigri. 

Harry Kane skoraði þrennu fyrir Englendinga sem hafa unnið alla leiki sína í A-riðli undankeppninnar nema einn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×