Fótbolti

„Leikstíll þýska landsliðsins er meira í anda Liverpool“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joachim Löw tekur í spaðann á Timo Werner.
Joachim Löw tekur í spaðann á Timo Werner. vísir/getty
Árið 2018 var skelfilegt fyrir þýska karlalandsliðið í fótbolta. Þjóðverjar, sem voru þá heimsmeistarar, lentu í neðsta sæti síns riðils á HM í Rússlandi og komust þ.a.l. ekki í útsláttarkeppnina.

Ekki tók betra við í A-deild Þjóðadeildarinnar þar sem Þýskaland endaði í neðsta sæti síns riðils og féll niður í B-deildina.

Í ár hefur hins vegar gengið öllu betur og Þjóðverjar tryggðu sér sæti á EM 2020 með 4-0 sigri á Hvít-Rússum í Mönchengladbach á laugardaginn.

Raphael Honigstein, þýskum blaðamanni og höfundi ævisögu Jürgens Klopp, segir að Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands, hafi tekið að snúa gengi Þjóðverja við á þessu ári.

„Þeir lærðu af þessu. Leikstíllinn hefur breyst. Þjóðverjar eru aðeins beinskeyttari, treysta meira á skyndisóknir og leikstíllinn er meira í anda Liverpool,“ sagði Honigstein í samtali við Vísi.

Hann segir að áður en Leroy Sané meiddist hafi Löw spilað með þrjá snögga framherja.

„Þeir voru með þrjá topp framherja þegar Sané var heill. Með honum voru [Timo] Werner og [Serge] Gnabry og þeir skiptu ört um stöður,“ sagði Honigstein.

Hann segir að Þjóðverjar séu í vandræðum vegna meiðsla varnarmanna.

„Við erum ekki með marga miðverði. Sá besti, Nicklas Süle, er meiddur og líka sá næstbesti, Antonio Rüdiger. Svo er sá þriðji besti, Mats Hummels, ekki valinn. Við erum í smá vandræðum í miðri vörninni,“ sagði Honigstein sem hefur trú á því að Þjóðverjar geti gert góða hluti á EM næsta sumar.

„Löw lærði sína lexíu á HM og við verðum sterkir á EM.“

Þýskaland tekur á móti Norður-Írlandi í lokaleik sínum í undankeppni EM 2020 í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Klippa: Raphael Honigstein um þýska landsliðið
 


Tengdar fréttir

Holland aftur á stórmót

Holland, Þýskaland, Króatía og Austurríki tryggðu sér sæti á EM 2020 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×