Samningafundi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins lauk rétt fyrir klukkan sex í dag. Boðað hefur verið til annars fundars klukkan hálf tvö á morgun.
„Við fórum ítarlega yfir þessu mál til að reyna að koma þessum viðræðum í farveg. Niðurstaðan er sú að samninganefndirnar þurfa að skoða ákveðna hluti og svo hittust við aftur hjá ríkisáttasemjara,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins.
Aðspurður um hvernig viðræðurnar hafi gengið í dag segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að eftir fund dagsins hafi deiluaðilar séð ástæðu til þess að hittast aftur strax á morgun.
Framundan er þriðja vinnustöðvun félagsmanna Blaðamannafélagsins á föstudaginn kemur á vefmiðlunum Vísi, mbl.is, ruv.is og frettabladid.is auk þess sem að ljósmyndarar og tökumenn leggja niður störf. Verði af vinnustöðvuninni mun hún ná frá klukkan tíu að morgni til tíu að kvöldi.
„Við erum klárlega að reyna að pota þessu áfram og það er vinnustöðvun á föstudaginn kemur þannig að við erum að reyna að vinna í þessu en óljóst hvert það leiðir,“ segir Hjálmar.
Blaðamenn Vísis eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands.
