Ólafur hætti í haust að þjálfa Val. Hann var í fimm ár með Valsmenn og undir hans stjórn urðu þeir tvisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þar áður gerði Ólafur FH þrisvar að Íslandsmeisturum.
Arnar Björnsson ræddi við Ólaf eftir að hann var kynntur sem þjálfari Stjörnunnar í dag.
„Þegar þetta tækifæri kom upp í hendurnar að þá fannst mér það spennandi að ég gat ekki sleppt því. Þetta er geggjuð íþrótt og gaman að starfa við hana. Ég held að það séu forréttindi,“ sagði Ólafur.
Hann segir að fleiri lið hafi haft samband. Hann ákvað að leggjast undir feld, taka sér gott frí og skoða málin eftir það. Ólafur segir að hugmyndin um að hann færi til Stjörnunnar hafi verið rædd fyrir nokkru.
„Við Rúnar verðum saman með liðið, hlutverkaskipti eru klár milli okkar. Við vinnum þetta saman.“
En eruð þið Rúnar ekki báðir erfiðir í skapinu, gengur ykkur eitthvað að vinna saman?
„Ég held að það sé góður plús þegar menn eru hálfklikkaðir eins og við báðir. Það hjálpar,“ svaraði Ólafur.
Hvaða möguleika telur Ólafur að Stjarnan eigi í titilbaráttunni næsta sumar?
„Stjarnan er ungt félag og hefur staðið sig vel undir stjórn Rúnars undanfarin 6-7 ár. Við erum bjartsýnir og ætlum að byrja að æfa eftir helgi. Auðvitað þekki ég knattspyrnugetu þessara knattspyrnumanna. En aðra hluti þarf ég að kynna mér betur.“
En er ekki stefnan að vinna Val í báðum leikjunum næsta sumar?
„Nei, nei, helst að vinna alla. Það er best. Ég er hrikalega spenntur. Þetta verður gaman. Ég veit það,“ sagði nýráðinn þjálfari Stjörnunnar, Ólafur Jóhannesson.
Viðtalið má sjá hér fyrir neðan.