Erlent

Skutu eldflaugum í tólfta sinn á árinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur gefið Bandaríkjunum frest út árið til að hefja viðræður á nýjan leik.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur gefið Bandaríkjunum frest út árið til að hefja viðræður á nýjan leik. AP/Ahn Young-joon
Tveimur skammdrægum eldflaugum virðist hafa verið skotið á loft frá Norður-Kóreu í morgun. Samkvæmt yfirmönnum herafla Suður-Kóreu var eldflaugunum skotið til austurs, eins og oftast er gert, og flugu þær um 370 kílómetra í 90 kílómetra hæð áður en þær féllu í hafið. Suður-Kóreumenn fylgjast nú náið með nágrönnum sínum í norðri og hvort fleiri eldflaugum verði skotið á loft.

Yonhap fréttaveitan, frá Suður-Kóreu, segir að herafli landsins hafi vitað af flutningi færanlegra skotpalla innan Norður-Kóreu. Verið sé að fara yfir þau gögn sem til eru til að greina hvurslags eldflaugar um sé að ræða.



Þetta er í tólfta sinn sem eldflaugum hefur verið skotið á loft frá Norður-Kóreu á þessu ári. Síðast var það gert í byrjun mánaðarins þegar tilraun var gerð með eldflaug sem hægt er að skjóta úr kafbátum.

Samband ríkjanna tveggja hefur versnað töluvert á undanförnum mánuðum. Áður virtist það þó vera að skána og funduðu embættismenn ríkjanna reglulega. Alger pattstaða hefur hins vegar myndast í viðræðum varðandi kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlanir Norður-Kóreu.

Forsvarsmenn Norður-Kóreu vilja losna undan viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum áður en þeir grípa til nokkurs konar aðgerða vegna framleiðslu þeirra á kjarnorkuvopnum og eldflaugum. Yfirvöld Bandaríkjanna vilja þó hins vegar að einræðisríkið grípi til aðgerða áður en viðskiptaþvinganir verða endurskoðaðar.

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur gefið Bandaríkjunum frest út árið til að hefja viðræður á nýjan leik. Á sunnudaginn sendu Norður-Kóreumenn frá sér yfirlýsingu um að ríkisstjórn Donald Trump ætti ekki að hunsa þann frest. Það yrðu mistök.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×