Innlent

Skæð magapest starfsmanna KPMG tilkynnt til sóttvarnalæknis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skrifstofur KPMG í Reykjavík eru staðsettar í Borgartúni.
Skrifstofur KPMG í Reykjavík eru staðsettar í Borgartúni. Vísir/vilhelm
Veikindi starfsmanna á skrifstofu ráðgjafafyrirtækisins KPMG voru tilkynnt til sóttvarnalæknis á mánudag. Starfsmannastjóri fyrirtækisins segir að um hafi verið að ræða útbreidda magapest og að alls hafi um áttatíu starfsmenn fundið fyrir einkennum.

Andrés Guðmundsson starfsmannastjóri KPMG á Íslandi segir að ljóst hafi verið síðasta föstudag að magapest á skrifstofu KPMG í Borgartúni væri orðin ansi útbreidd. Hann hafi því haft samband við sóttvarnalækni á mánudag.

„Þetta var það mikið að við vildum fá ráð hjá þeim. En sem betur fer var þetta þá gengið yfir. Það var heldur ekki hægt að rekja þetta til eins eða neins,“ segir Andrés.  

Alls hafi um áttatíu starfsmenn kennt sér meins en þar sem þeir hafi allir verið orðnir frískir nú í vikubyrjun var ekki hægt að greina pestina. Einkennin hafi þó mörg bent til þess að um nóróveirusmit væri að ræða.

Þá leggur Andrés áherslu á að veikindin tengist ekki nýlegri árshátíð á vegum fyrirtækisins. Hann vissi ekki heldur til þess að fjölskyldur starfsmanna hefðu smitast af pestinni.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/baldur
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfestir í samtali við Vísi að embættið hafi veikindi starfsmanna KPMG á sínu borði. Málið sé í farvegi.

„Þetta var svo til um garð gengið þannig að það var erfitt að rannsaka hvaðan þetta kom og hver orsökin er. Það er erfitt að fá greiningu á veikindum þegar öllum er batnað. Þetta hljómar eins og það gæti verið nóróveira, en maður getur ekki verið viss.“

Þá hafi Heilbrigðiseftirlitið verið kallað út til að kanna aðstæður á vinnustaðnum og mögulegar smitleiðir. Einnig hafi heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins verið látin vita af málinu.

Margar tilkynningar um nóróveiru á höfuðborgarsvæðinu hafa borist heilbrigðisyfirvöldum síðustu daga. Ungbarnaleikskólanum Ársól í Grafarvogi var lokað í síðustu viku eftir að mörg börn veiktust þar af nóróveiru. Þá greindi Mbl frá því í dag að veiran hafi greinst á tveimur af fjórum deildum Hrafnistu í Hafnarfirði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×