Körfubolti

Banda­ríski leik­maður Vals neitaði að spila seinni hálf­leikinn og Valur í leit að nýjum leik­manni

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals þarf að leita að nýjum leikmanni
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals þarf að leita að nýjum leikmanni
Furðulegt atvik átti sér stað í Blue-höll Keflvíkinga í kvöld á meðan leik stóð á milli heimamanna og Vals í Dominos-deild karla. Chris Jones, bandarískur leikmaður Vals lék ekki með liðinu í seinni hálfleik og horfði hann á leikinn í borgaralegum klæðum. Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals sagði svo í viðtali eftir leik að Jones hefði neitað að spila seinni hálfleikinn.

 

„Það er best að spyrja hann að því sjálfur. Hann sagðist ekki ætla að spila seinni hálfleikinn. Hann stimplaði sig bara út,“ sagði Ágúst eftir leik er hann var spurður út í Jones.

 

Það er fáheyrt að atvinnumenn neiti að spila leiki, og er því um afar furðurlegt atvik að ræða. Ágúst segir að leikmaðurinn sé ekki leikmaður Vals lengur.

 

„Nei ég efast um það. Hann getur ekki talist leikmaður Vals ef hann yfirgefur liðið í hálfleik.“

 

Aðspurður hvort að Chris Jones hefði gefið einhverjar ástæður fyrir þessari ákvörðun sinni var svar Ágústar stutt og laggott.

 

„Nei.“

 

Valsmenn léku miklu betur í seinni hálfleik þrátt fyrir fjarveru Jones en það kom ekki í veg fyrir tap Valsmanna. Jones skoraði fjögur stig á þrettán mínútum í leiknum í kvöld.

 

„.Við verðum bara að finna nýjan mann en mér fannst strákarnir tækla þetta mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×